Sælla er að gefa en þiggja

Nú þegar sjálfboðaferð minni til Dóminíska Lýðveldisins og Haítí er á enda komin þá langar mig að hnýta hana saman í örfá orð og deila með þér.

Þetta var mín þriðja sjálfboðaferð en upplifunin hefur verið öðruvísi en hinar tvær. Í fyrstu tveimur ferðunum fór ég aðeins til Dóminíska Lýðveldisins (DL) og hafði minn snobbaði botn ákveðnar skoðanir og kvartarnir um leið og ég steig út úr flugvélinni. Loftið var þungt og skítugt, rútan sem sótti okkur var skítug og á leiðinni á hótelið voru öll hús að mér fannst annað hvort hálfkláruð, yfirgefin eða við það að fara að hrynja. Svo þegar á hótelið var komið þá voru rúmin óþægileg, sturtan var köld og maturinn var spes og skrítinn á bragðið. Í bæði skiptin vorkenndi ég fólkinu í DL fyrir hvað það þarf að lifa við frá degi til dags og ég hugsaði oft hversu gott ég hefði það, ég er með mína eigin íbúð sem er í heilu lagi, súrefnið er hreint, maturinn er vel amerískur og á ég alltaf nóg af góðum mat, rúmið er þægilegt og sturtan er alltaf heit. En þetta tökum við sem sjálfsögðum hlut frá degi til dags.

Þessi ferð var hins vegar öðruvísi en það sem maður er vanur og það sem var öðruvísi var Haítí. Áður en ég fór af stað í þessa ferð hafði ég heyrt sögur um að á Haítí væri slæmt ástand. Ég hafði gert mér það upp í hausnum að ekki gæti það nú versnað frá DL, því þar fannst mér í mörgum aðstæðum botninum náð á mannsæmandi réttindinum. En annað kom nú á daginn. Það er erfitt að lýsa því sem maður sá og skilyrðin sem fólk býr við, en þau eru vægast sagt döpur. Í einu þorpinu sem við fórum í spiluðu strákarnir í hverfinu fótbolta á tánum og með bolta sem þeir höfðu búið til úr gúmmíteyjum og ullar spotta. Stelpurnar voru svo í skýjunum með eitt sippuband sem þeim var gefið. Eina lýsingin sem mér dettur í hug til að gefa þér mynd af hvernig hlutirnir eru er að ef hundurinn minn væri hýstur við þessi sömu skilyrði og fólk býr við á Haítí þá væri Dýraverndarnefnd líklegast búin að koma og taka hann frá okkur.

Eitt það skemmtilegasta við ferðina var að sjá hvernig krakkarnir brugðust við að sjá okkur þegar við komum með rútunni og byrjuðum að setja upp bekkina okkar. Krakkarnir eru farin að þekkja og vita hvaða hópur þetta er og hvað þessi samtök gera. En þessi sjálfboða samtök fara til Haítí fjórum sinnum á ári svo mörg hver börnin vita hvað við gerum sem Kírópraktorar. Þau hreinlega slást um að komast að til að leyfa okkur athuga með taugakerfið þeirra. Þau vita hvað það er mikilvægt að hafa taugakerfi sem er með 100% flæði milli heilans sem sendir skilaboð gegnum mænuna og til allra líffæra, vöðva og frumna líkamans. 

GOPR0608

Ég man vel að tilfinningin við að koma yfir til DL frá Haítí var eins og einhver hefði ýtt á takka til framtíðarinnar um 30 ár. Um leið og maður kemur yfir landamærin aftur til DL þá er allt eitthvað svo flott og hreint sem áður hafði verið svo glatað. Þegar ég svo kom á þetta sama hótel og við höfðum verið á nokkrum dögum áður leið manni eins og á fínasta Hilton hóteli. Allt í einu voru rúmin þægileg og allt var æðislegt.

Það er þó ekki fátæktin og slæmt lifnaðar ástand fólksins sem stendur eftir heldur er það gleðin, hamingjan, faðmlögin og öll fallegu brosin sem skilja eftir sig ógleymanlegar minningar. Það er ótrúlegt að hugsa út í það hvað maður vælir mikið alla daga yfir hinu og þessu og kvartar yfir minnstu hlutum. Fólkið á Haítí lifir við þessar aðstæður á hverjum degi og þó ég sé núna kominn aftur til Bandaríkjanna þá eru þau ennþá þarna og lifa enn við sömu skilyrði.

Ég fór í þessa sjálfboðaferð með það fyrir stafni að gefa af mér til fólksins og hjálpa þeim með því sem ég hafði fram að bjóða. Ég gerði það og lagði mig allan fram við það. Ég gaf af mér, en ég fékk svo miklu meira í tilbaka staðinn. Spenningurinn og áhuginn á að fylgjast með manni og hvað maður var að gera fyrir annað fólk og svo brosin, faðmlögin og þakklætið var eitthvað svo ótrúlega sérstakt. 

Ég er rosalega þakklátur og glaður fyrir alla þá sem hjálpuðu mér að komast í þetta ferðalag og gera það að veruleika. Ég fékk að vinna við ástríðu mína og að hjálpa öðrum. 

Doing what you like is freedom. Liking what you do is happiness.

 

Meðan ég var úti þá minnti þetta lag hans Steinda Jr. mig á krakkana á Haítí.

https://www.youtube.com/watch?v=ToXg7gE-vWI

 

Það sem mér fannst ég læra hvað mest af fólkinu á Haítí er að lífið er hamingja og gleði. Tökum einn dag í einu og verum þakklát fyrir fólkið í kringum okkur og  hvað við höfum það rosalega gott.

 

579135451777113910WHvRHtVc

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband